Heim / Góð ráð / Hvít rúmföt eða lituð á hótelrúmin?

Hvít rúmföt eða lituð á hótelrúmin?

Hótelrúm

Margir viðskiptavinir okkar velta fyrir sér hvort sé betra að hafa hvít eða lituð rúmföt á gestarúmunum. Fljótt á litið gætu báðir kostir haft ýmislegt með sér en sé kafað dýpra kemur annað í ljós.

Aðalástæðan á bak við kaup á lituðum rúmfötum er útlitsleg. Fallegir litir “poppa” gjarnan upp herbergin og gera þau meira spennandi og jafnvel nýtískulegri ef vel er hugað að smáatriðum. Blettir sjást líka minna í lituðum rúmfötum og því er í mörgum tilfellum hægt að nota þau aðeins lengur en þau hvítu.

Það er engin tilviljun að mörg af stærri og betri hótelum heims eru með hvítt á rúmunum hjá sér. Við rákumst á þessa grein í Huffington post þar sem kemur fram að gestir upplifa sterkari tilfinningu um hreinleika og lúxus þegar hvít rúmföt eru á rúmunum. Westin og Sheraton hótelin gerðu könnun meðal gesta sinna þegar ákveðið var að skipta út lituðum rúmfatnaði í hvítan. Niðurstaðan úr henni var sú að margir gestanna töldu allt herbergið hefði verið endurnýjað, þrátt fyrir að einungis hefðu verið sett hvít rúmföt á rúmin í stað þeirra lituðu.

Varðandi bletti í rúmfötum þá er það vissulega rétt að þeir sjáist minna í lituðum rúmfötum. En gott er að hafa í huga að sá sem þvær þvottinn er einnig líklegur til þess að missa af bletti sem ekki ætti að sjást í rúmfötunum. Greini gesturinn þinn blett sem möguleg gæti flokkast sem líkamsvessi er upplifun hans af herberginu líkast til samstundis ráðin. Það getur því komið hótelinu þínu betur að hafa rúmföt þar sem starfsfólkið sér strax ef skipta þarf út setti.

Annað sem vert er að hafa í huga er að á einhverjum tímapunkti í rekstrinum þarf að byrja að kaupa ný rúmföt í stað þeirra sem eru farin að slitna eða þeirra sem hafa eyðilagst. Séu rúmfötin lituð þá er liturinn á eldri rúmfötunum eflaust farinn að dofna. Þegar nýju rúmfötin blandast þeim eldri í þvotti byrjar hið miður skemmtilega verkefni að para saman réttu litatónana. Ef þriðji umgangurinn bætist svo við á einhverjum tímapunkti, fer verkefnið úr því að vera miður skemmtilegt, í óþolandi.

Að auki má nefna að ýmsar snyrti- og hárvörur eru hlaðnar bleikingarefnum sem eyðileggja samstundis efnasambönd í lit vefnaðarins. Þannig geta myndast gular, appelsínugular eða neongrænar skellur í bæði rúmfötum og lituðum handklæðum. Þá er fátt annað til ráða en að henda vörunni eða ættleiða viðkomandi stykki heim og horfa upp á heimilislínið breytast í samansafn af undarlega blettóttum vefnaði, sem muna má fíflil sinn fegurri.

Af ofantöldu má draga þá ályktun að lituð rúmföt hafi fátt með sér fyrir hótelherbergið og það má vissulega til sannsvegar færa þegar um ræðir stærri hótel og gistiheimili. Hins vegar geta þau verið skemmtilegur kostur fyrir þá aðila sem eru með fá herbergi og góða yfirsýn. Margir smærri aðilar innan ferðaþjónustunnar og Airbnb gestgjafar eru hæst ánægðir með að geta gefið herbergjunum sínum svolítið persónulegra ‘töts’. Góð yfirsýn, svolítil þolinmæði og gott “bletta” auga eru því í raun allt sem þarf sé þessi leið valin. Fyrir alla aðra, þá mælum við eindregið með hvítu!